149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:50]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason hefur að undanförnu einbeitt sér að leitinni að fyrirvörunum. Hún hefur enn ekki borið árangur en þó hefur málið skýrst heilmikið því að okkur hefur tekist að afskrifa kenningar sem lagðar hafa verið fram um hvar þá væri að finna til þessa.

En í ljósi stöðunnar í leitinni núna liggur beinast við að spyrja hv. þingmann, sérstaklega út frá orðum hans um að engin þeirra kenninga sem settar hafa verið fram um hvar fyrirvarana kunni að vera að finna muni standast ef til lagalegs ágreinings kemur: Eru ekki umtalsverðar líkur á því að þegar um er að ræða svona stórt hagsmunamál og umfangsmikið hagsmunamál framtíðarinnar eins og orkumálin, að koma muni til einhvers konar lagalegs ágreinings fyrr eða síðar, og líklega fyrr, enda gífurlegir hagsmunir þarna undir, bæði fjárhagslegir og pólitískir hagsmunir, einkum og sér í lagi af hálfu Evrópusambandsins?

Manni finnst það einhvern veginn liggja beint við að þegar búið verður að innleiða svona regluverk muni einhverjir láta á það reyna hvort til að mynda þessi sameiginlega orkustofnun Evrópusambandsins gegni raunveruleg því hlutverki sem lýst er.

En spurningin er sem sagt þessi: Nú þegar fyrir liggur að enginn þessara fyrirvara muni standast ef til ágreinings kemur, er ekki óhætt að gera ráð fyrir því að koma muni til ágreinings og þar af leiðandi muni fyrirvararnir bregðast?