149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:54]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að skýra þetta nánar en ítreka spurningu mína: Er ekki að hans mati mjög líklegt að í svona málaflokki eins og orkumálin eru, muni fyrr eða síðar, og líklega fyrr, koma til ágreinings um einhver atriði?

Þetta er það víðtækt svið og hagsmunirnir sem þarna eru undir eru það miklir og það mikið af lögum og reglugerðum sem tengjast þessu. Valdsvið Evrópusambandsins eða stofnana eins og ACER og ESA og annarra Evrópustofnana er það mikið að þegar þetta þrennt fer saman, þetta mikla valdsvið, þessi stóri og margslungni málaflokkur og þessir miklu hagsmunir, verður þess vart lengi að bíða að upp komi ágreiningur, upp komi álitamál. Og þá komi til kasta innihaldslausu, haldlausu fyrirvaranna og þeim verði sópað út af borðinu eins og dauðum flugum, eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson orðaði það.

Þetta er ekkert smámál, þetta er ekki mál sem ólíklegt er að einhver álitaefni skapist um. Þetta er annað af tveimur megináhersluatriðum Evrópusambandsins. Þetta er eitt mesta hagsmunamál Íslendinga. Þetta er eitt mesta vaxtarsvið í efnahagslegu tilliti á Vesturlöndum, orkumálin.

Er ekki óhætt að álykta að koma muni til álitaefna eða ágreinings?