149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:57]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Já, herra forseti. Sagt var hérna áður fyrr að Húnvetningum liði alls ekki vel nema þeir stæðu í einhverjum málaferlum og vildu helst alltaf hreint vera með eitthvert mál í gangi fyrir dómstólum.

Í tilefni af spurningu hv. þingmanns er það auðvitað þannig, sérstaklega þegar um fjármuni er að ræða, að fólk lætur nú sverfa til stáls ef það heldur að það geti einhvers staðar seilst í slíkt ef það telur á sér brotið og að það komi einhvers staðar við við budduna. Það er auðvitað mjög líklegt að ef við innleiðum orkutilskipunina muni ekki líða á löngu þar til einhver finnur sig knúinn til að láta reyna á einhverja þætti eða ákvæði í þessari tilskipun og þarf jafnvel ekki sæstreng til. Ranghalar reglugerðanna í Evrópusambandinu verða seint fullkannaðir.

Ég lít svo á að eini fyrirvarinn sem gæti haft einhverja merkingu fyrir okkur Íslendinga sé sá fyrirvari sem gerður á réttum vettvangi, þ.e. fyrir sameiginlegu EES-nefndinni, og fengi rétta og lögformlega meðferð þar. Ég get ekki séð annað en að það sé fullur vilji af hálfu EFTA-ríkjanna og einhverra fulltrúa Evrópusambandsins til þess að koma á móts við sjónarmið Íslendinga í þessu máli.