149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, hv. þingmaður — ég þakka honum fyrir spurningarnar — segir að þetta sé klókt af sambandinu. Ég ætla heilu sambandi ekki að vera með klækjabrögð í sjálfu sér og hafa einhvern sérstakan vilja til þess. Ég held að það séu ákveðin markmið með regluverkinu, eins og með orkutilskipuninni. Í svona stóru sambandi með hundruð milljóna íbúa stendur ekkert í vegi fyrir þeim markmiðum sem eru í regluverkinu. Ísland, svo lítið sem það er og fjarlægt og fámennt og dreifbýlt — ég sá einhvers staðar þann samanburð að við værum jafn stór og jafn fjölmenn og hugsanlega líka jafn langt í burtu frá Evrópusambandinu og á mjög svipuðum stað og Grímsey í samanburði við Ísland. Þannig að menn geta kannski ímyndað sér það ef Grímseyingar myndu kannski ekki vilja fara eftir einhverjum reglum sem við vildum innleiða í Grímsey líka. Það skiptir auðvitað engu máli í heildarsamhenginu, engu máli í raun og veru. Án þess að menn ætli sér að valta yfir einhvern eða misnota stöðu sína eru þessi markmið bara það sterk og það er svo mikið undir fjárhagslega að það skiptir ekki nokkru máli hvað verið er að hvísla einhvers staðar á fámennri eyju úti í Atlantshafi.