149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:06]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, þetta er hárrétt hjá hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni. Ég þakka honum fyrir spurninguna og fyrir að útskýra hana betur. Ég held að hið rétta orð yfir þetta, hv. þingmaður, sé skilvirkni. Þegar sambandið tekur stefnu í einhverju málefni, setur um það reglugerðir eða tilskipanir, er ætlast til þess að því sé framfylgt, ákveðnum höfuðmarkmiðum og öðrum markmiðum. Ef menn sjá að menn ætla ekki að fara eftir þeim eða reyna að komast undan þeim þá ríður á að ákveðin skilvirkni sé til staðar.

Oft hefur verið deilt á það, herra forseti, að skilvirknin gagnvart EFTA-nefndunum sé oft og tíðum talin meiri og öflugri og nákvæmari en tíðkast innan Evrópusambandsríkjanna sjálfra. Að EFTA-ríkin séu kaþólskari en páfinn að því leyti til að um leið og eitthvað ber út af séu menn komnir á staðinn og skoðun á málum hefjist skjótt. Menn hafa kvartað yfir þessu. En að sjálfsögðu er viðkvæðið gjarnan að menn verði auðvitað að hlýða reglunum, sem er rétt.

Varðandi þessa orkutilskipun verðum við alltaf að hafa það í huga og ofarlega í huga að við erum að fjalla um eina af mikilvægustu auðlindum þjóðarinnar, þ.e. orkuna.