149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:13]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, sem er afar merkileg fyrir þær sakir að hún er ekki sú fyrsta og því síður sú síðasta, að ég tel, í nokkuð langri runu ræðna sem fjalla um sögu orkumála og meðferðar þeirra í höndum Alþingis í nýlegri fortíð.

Reyndar var farið inn á það hér í gær eða fyrradag — dagarnir renna aðeins saman hjá mér núna — að orkumál þjóðarinnar hafa verið okkur hugleikin. En eitt hefur ávallt verið mönnum hugleikið, þ.e. að auðlindin sé í höndum Íslendinga og verði ekki framseld.

Þar drepur hv. þingmaður niður í grein sem um 17 ára gömul, frá árinu 2002, ef ég tók rétt eftir. Þar eru menn að velta fyrir sér sömu atriðum og nú varðandi þetta reglugerðarumhverfi og lög sem við eigum við nú. Þannig að menn horfðu fram í tímann og veltu því fyrir sér hvað fylgdi þessu og hvaða áhrif þetta hefði.

Og menn hafa alltaf sömu áhyggjurnar, að verið sé að seilast æ lengra og lengra. Það er vissulega raunin vegna þess að sífellt er bætt við regluverkið og lögin, sem kvarna smám saman úr því sjálfræði og fullveldi sem við höfum yfir auðlindum okkar.

Eru hugleiðingar hv. þingmanns á sama veg og mínar?