149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:20]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að virðulegur forseti hafi áttað sig á því að nú erum við komnir á spor með nýja og áhugaverða nálgun á þetta mál.

Það að læra af reynslunni en að nota aðferðir sem gefist hafa vel annars staðar til að læra af reynslunni, og svo þessi frábæra samlíking hv. þingmanns við flugið út frá því að menn eigi þess kost, en beri í rauninni ekki skylda til þess, að benda á og viðurkenna mistök, enda verði þeim ekki refsað fyrir það.

Hér er augljós skírskotun gagnvart þingmönnum þeirra flokka sem boðað hafa að við þurfum að innleiða þriðja orkupakkann. Við þurfum kannski að reyna að fullvissa þá um að ef þeir viðurkenna mistök, læra af reynslunni, eins og þessi dæmi sem ég rakti hér áðan, og vilja skipta um skoðun, vilja hugsa málið betur, jafnvel hafna þessari tilskipun og helst senda hana aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar, verði þeim ekki refsað fyrir það.

Ég skal fullyrða við hæstv. forseta hér og nú að við munum ekki refsa þeim sem sjá að sér, læra af reynslunni og endurskoða hug sinn, í sumum tilvikum aftur, til þessa máls til að koma í veg fyrir nýtt slys. Við munum þvert á móti hrósa viðkomandi, hvetja þá til dáða og gera ráð fyrir því að vonandi njóti þeir sannmælis fyrir vikið meðal stuðningsmanna sinna og kjósenda, jafnvel.