149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að vitna í stjórnmálamenn, hvað þeir sögðu á árum áður sem tengdist innleiðingu á orkutilskipunum Evrópusambandsins. Okkur verður tíðrætt um það í þjóðfélaginu að bæta þurfi ímynd Alþingis og bæta starf Alþingis. Það er eitt af málefnunum á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að styrkja Alþingi, eins og það er kallað. Síðan koma málefni upp, stór og mikil málefni, þar sem er sýnilegt að menn tala þvert á það sem þeir sögðu fyrir einu ári eða jafnvel fyrir fáeinum mánuðum.

Við sjáum t.d. hæstv. fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, hvernig hann hefur algjörlega skipt um skoðun. Hann flutti hér í þinginu ræðu fyrir rétt rúmu ári þar sem hann lýsti miklum efasemdum sínum um innleiðingu á orkupakka þrjú. Það hafa fleiri þingmenn gert og formaður Framsóknarflokksins hafði miklar efasemdir um þennan orkupakka og stofnanir þessara sömu flokka ályktuðu í (Forseti hringir.) þá veru líka.

Þá er spurningin til hv. þingmanns: Er það ekki bara málið að stjórnmálin, og (Forseti hringir.) sérstaklega þegar menn koma fram með þessum hætti, hafi algerlega (Forseti hringir.) farið fram úr almenningi og virði ekki þessar lögformlegu stofnanir flokkanna?

(Forseti (BN): Forseti leggur áherslu á að spurningarnar komi fram áður en tíminn er liðinn.)