149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:25]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vænti þess að virðulegur forseti vilji líka fá svörin áður en tíminn er liðinn, og ég skal gera mitt besta. En spurningin kallar hins vegar á dálitlar vangaveltur. Hv. þingmaður spyr: Eru stjórnmálaflokkarnir sem í hlut eiga komnir fram úr almenningi og baklandi sínu? Já, það kann að vera að það megi orða það þannig. En það er a.m.k. ljóst að flokkarnir eru farnir að líta fram hjá almenningi og baklandi sínu.

Þetta er því miður þróun sem við horfum upp á víða um lönd. Í dag hafa farið fram kosningar til Evrópuþingsins í Bretlandi. Ég veit ekki hvort það kemur virðulegum forseta á óvart að verið sé að kjósa til Evrópuþingsins í Bretlandi, enda ákváðu Bretar að segja sig úr Evrópusambandinu fyrir þremur árum. Hvernig stendur á þessu? Jú, stjórnmálamennirnir hafa ekki hlustað á almenning, hafa ekki hlustað á kjósendur sína og stuðningsmenn í baklandi flokkanna. Þeir hafa hlustað á kerfið og látið kerfið stjórna sér. Afleiðingin er sú að Bretland hefur ekki enn losnað úr viðjum Evrópusambandsins. Þeim flokkum sem hafa brugðist almenningi með þessum hætti hefur eflaust verið refsað í kosningunum í dag.

Því er svar mitt við spurningu hv. þingmanns: Já, flokkarnir hafa a.m.k. orðið viðskila við vilja almennings og kjósenda sinna, en vonandi virkar lýðræðið enn að því marki að þeir þurfi þá að sæta afleiðingum þess.