149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:30]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Áður en ég svara athugasemdum hv. þingmanns vil ég biðja forseta að skrá mig aftur á mælendaskrá, ég virðist hafa gleymt því. Ég hef verið að reyna að komast í umræðu um efnahagsleg áhrif þriðja orkupakkans á landið.

En þá að athugasemdum hv. þm. Birgis Þórarinssonar. Ég held að hann hafi komist að kjarna málsins þegar hann sagði að við yrðum að vona að andstæðingar okkar í pólitík myndu gera það sem er líklegt til að auka stuðning við þá, þótt hv. þingmaður hafi ekki orðað það nákvæmlega þannig. Það er svolítið sérkennilegt að vera í þeirri stöðu að vera að reyna að leiðbeina pólitískum andstæðingum svo að þeim gangi betur í framhaldinu.

En það er einfaldlega vegna þess að við lítum svo á að þetta orkupakkamál sé það mikilvægt, varði það mikla þjóðarhagsmuni til framtíðar, að það eigi að vera hafið yfir pólitíska flokkadrætti, þetta eigi að vera mál sem allir geti sameinast um, rétt eins og við höfum séð eldri eða fyrrverandi stjórnmálamenn, alveg frá vinstri til hægri, sameinast um að vara við þessu máli.

Ég ber því þá von í brjósti að þeir flokkar sem einu nafni eru kallaðir samtryggingarflokkarnir hverfi frá því að láta kerfið stjórna sér og fari að huga að vilja flokksmanna og vilja almennings í þessu máli. Því eins og hv. þingmaður benti einmitt á fyrr í kvöld — og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson einnig — hefði það ekki verið vænlegt til árangurs fyrir þessa flokka í kosningum að lofa því að innleiða þriðja orkupakkann.