149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:32]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Ég hef fyrir framan mig viðauka sem tekinn er af heimasíðu Evrópusambandsins um það sem heitir á enskri tungu, með leyfi forseta: „Electricity market design“ og verður hér fluttur í lauslegri þýðingu, þar sem við höfum ekki alla þessa viðauka og reglugerðir á íslensku sem væntanlegar eru.

Með leyfi forseta, er samkvæmt þessum viðauka eitt af aðalmarkmiðum með pakkanum hrein orka fyrir alla Evrópubúa, „Clean energy for all Europeans“, á ensku, að uppfæra og breyta uppbyggingu í evrópska raforkumarkaðnum miðað við þær breytingar sem orðið hafa í orkumálum á síðustu árum og munu verða á komandi árum. Talið er að orka frá endurnýjanlegum orkugjöfum muni aukast um 25%, upp í rúmlega 50% á árinu 2030, og því þarf að uppfæra Evrópusambandsreglurnar til þess að koma þessum nýja lið inn í regluverkið. En þó að sólin skíni ekki og vindurinn blási ekki þarf samt sem áður að framleiða næga orku til að anna eftirspurn. Bæta þarf markaðina til að mæta þörfum fyrir endurnýjanlega orku og laða að fjárfestingar, t.d. í orkugeymslum, eða því sem heitir á enskri tungu „energy storage“, til að vega upp á móti mismikilli orkuframleiðslu. Markaðir þurfa einnig að hafa almennilega hvatningu til að virkja neytendur til að tryggja stöðugleika í orkumálum.

Til að koma þessu af stað hefur Evrópubandalagið gert eftirfarandi:

Uppfært í „Electricity Directive“, sem er tilskipun 72/2009/EB og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 714/2009, sett inn nýja reglugerð um áhættuviðbúnað, eða „Risk Preparedness“, og aukið hlutverk ACER.

Nýju reglugerðirnar, sem tóku gildi í maí 2019, voru byggðar á þessari hreinu orku fyrir alla Evrópubúa, pakkanum sem komið var út í nóvember 2016. Þær birtar í riti sem kallast EU Official Journal, og munu öðlast gildi sumarið 2019, sem er það sumar sem við erum að fara inn í núna. Með tilskipun muni Evrópubandalagslönd fá 18 mánuði til að gera þessar nýju ráðstafanir að landslögum. Þessi nýja orkutilskipun og nýju orkulögin setja svo fram ný viðmið fyrir virkjanir varðandi styrki þannig að styrkir verði í beinu samhengi við orkuframleiðslugetu.

Með því að leyfa orku að flæða frjálslega þangað sem hennar er mest þörf hverju sinni munu samfélögin njóta góðs af verslun yfir landamæri og samkeppni. Í framhaldinu mun orkuöryggi aukast og evrópska orkukerfið verða stöðugra, þ.e. orkukerfi Evrópubandalagsins. Breytingin sem verið er að gera felst í því að skipta yfir í endurnýjanlega orku og aukna rafmagnstækni, sem er svo mikilvægt til að geta náð því markmiði um kolefnishlutleysi árið 2050. Þessi breyting mun einnig stuðla að nýjum störfum.

En að ACER. Í þessum viðauka segir að að gefnum þeim áskorunum sem fram undan eru fyrir evrópska orkumarkaðinn hafi hlutverk ACER verið aukið í orkumarkaðnum og einnig á því sviði hvað varðar öryggi framboðs. Upphaflega átti ACER, eins og það var lagt fram í orkupakka þrjú, aðallega að sinna eftirlitshlutverki, ráðgjafarhlutverki og samhæfingu, en þar sem fyrirsjáanlegt er til framtíðar að orkumarkaðurinn muni þurfa meiri samvinnu yfir landamæri var það séð sem hugsanlegt vandamál að ekki væri til aðili sem hefði það hlutverk að hafa svæðisbundið eftirlit með öllum ríkjum óháð landamærum.

Því hefur ACER nú verið veitt aukið vald þar sem flutningur yfir landamæri mun eiga sér stað til að koma í veg fyrir óþarfatafir og taka ákvarðanir þegar hætta er á frávikum, á ensku: „the risk of diverging decisions“. ACER mun nú hafa yfirumsjón yfir framtíðarsvæðisbundnum einingum og þar með koma í veg fyrir hugsanleg vandamál sem gætu komið upp ef hvert ríki fyrir sig stjórnaði sínum málum sem gæti haft neikvæðar afleiðingar á orkumarkaðinn og orkuneytendur. Þetta mun einnig hagræða framtíðarreglugerðum þar sem ACER mun nú geta gefið beint samþykki í stað þess að hvert og eitt ríki samþykki sérstaklega. Innlendar eftirlitsstofnanir innan ACER munu fá að greiða atkvæði og vera fullkomlega með í ferlinu og taka ákvarðanir hverju sinni, sem heitir á ensku „national reglulators“, eða „landsreglarar.“ Það er Orkustofnun, sem við höfum rætt svo mikið um hér.