149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ég held að það megi kalla þetta nokkurs konar skák og mát ræðu gagnvart þriðja orkupakkanum. Það var býsna margt sláandi í þessari lýsingu hv. þingmanns, margar setningar. Ein þó sérstaklega, þ.e. þegar hv. þingmaður talaði um vandamálin sem fylgdu því ef hvert ríki fyrir sig væri að stjórna sínum málum. Ef þetta sýnir ekki í hnotskurn að innleiðing þessa orkupakka og það að gera ACER að einhvers konar yfirþjóðlegri stofnun, sem teygir anga sína til Íslands, snúist um fullveldisafsal veit ég ekki hvað ætti að sannfæra menn um að sú væri raunin, hvað þyrfti til. Enda er þessi stofnun hluti af eða mikilvægur liður í því meginmarkmiði Evrópusambandsins að halda áfram að þróast í átt að meiri samþættingu, meiri miðstjórn, í átt að ríki, segja sumir, og um leið að draga úr valdi hvers þjóðríkis fyrir sig. Margir af forustumönnum Evrópusambandsins eru algjörlega ófeimnir við að viðurkenna þetta og segja að þetta þurfi að gerast, að smátt og smátt þurfi þjóðríkin að gefa eftir meira og meira af fullveldi sínu. En er hv. þingmaður ekki sammála mér um það að slíkt hentar ekki okkur Íslendingum?