149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:51]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Þeir sem reyna að halda því fram að ACER sé ekki yfirþjóðleg stofnun, feli ekki í sér yfirþjóðlegt vald, hafa líklega ekki kynnt sér málið. Eins og hv. þingmaður hefur gert mjög vel grein fyrir, ekki aðeins í þessari ræðu heldur í fyrri ræðum, þá kemur það skýrt fram, hvort sem menn leita á heimasíðu stofnunarinnar eða fara dýpra í reglugerðir Evrópusambandsins, hvers eðlis stofnunin er og að það eðli felur í sér yfirþjóðlegt vald. Og ekki bara það heldur er markmiðið með stofnuninni beinlínis að draga úr valdi þjóðríkjanna með yfirþjóðlegu valdi. Svoleiðis að annaðhvort hafa menn ekki kynnt sér þetta eða, sem er hinn möguleikinn, að þeir reyna að túlka hlutina upp á nýtt, ef svo má segja, til að beina athygli frá staðreyndum málsins og gefa til kynna að þetta sé eitthvað allt annað en það raunverulega er.

Hvað sem líður þeim tímaramma sem hv. þingmaður talaði um þá er það þannig, eins og við höfum nú komist að niðurstöðu um fyrr í kvöld, að þegar kerfið er komið af stað á einhverri braut þá heldur það áfram á þeirri braut og því verði að móta afstöðu okkar til þessarar stofnunar út frá því hvert hún stefnir. Ef við stökkum upp í lestina núna þá þýðir ekkert að stökkva út þegar hún er komin á fulla ferð.