149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:03]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Jú, ég held að það sé deginum ljósara að þetta er á skjön við það sem hér er lagt upp með og vekur upp ýmsar spurningar, eins og ég nefndi áðan í minni ræðu. Borið er við að búið sé að finna lausn til að þetta mál komi ekki til með að hafa þau áhrif sem menn héldu í upphafi og sú lausn felst í svokölluðum fyrirvörum sem ríkisstjórnin hefur lagt upp með og felst m.a. í því að sett verði lög sem kveði á um að ekki verði lagður sæstrengur til eða frá landinu nema með samþykki Alþingis. Evrópusambandið er yfir höfuð ekki fylgjandi fyrirvörum en ef þeir eru á annað borð til staðar hafa þeir verið samþykktir í gegnum sameiginlegu EES-nefndina og þar höfum við t.d. fengið fyrirvara varðandi jarðgas og skipaskurði, svo að dæmi sé tekið.

Hér eru hins vegar fyrirvarar sem eru settir án atbeina sameiginlegu EES-nefndarinnar og það skapar óvissu. Það er leið sem t.d. fræðimenn hafa sagt að sé ekki besta leiðin og þess vegna spyr maður: Hvers vegna er verið að velja leið sem er ekki besta leiðin? Hvers vegna er ekki farin sú leið, eins og t.d. með jarðgasið og skipaskurði, að fá bara undanþáguna þaðan, þ.e. í gegnum EES-nefndina? Það vekur upp ýmsar spurningar. Því hefur verið haldið fram að það varði það að EES-samningurinn sé í hættu. Ég tel ekki svo vera. Ég hef fært rök fyrir því og mun kannski koma nánar inn á það á eftir.