149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:05]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú málið með þessa fyrirvara. Margir þingmenn hafa komið í ræðustól og lýst yfir að það sem ég las upp hér áðan hafi verið þá en þetta sé nú, að með tilkomu þessara svokölluðu fyrirvara sé orkupakki þrjú bara allt annað mál en það sem var rætt hér fyrir ári. Staðreyndin er sú að orkupakki þrjú hefur ekki tekið neinum breytingum frá því sem hann var þá. Hins vegar eru þeir fyrirvarar sem meiningin er að setja hér á afar veikum grunni byggðir. Hér hafa verið færð efnisleg og lagaleg rök fyrir því að þeir geti ekki haldið sökum þess að þjóðaréttur gangi landsrétti framar. Svo einfalt er það.

Hér hafa verið fluttar ræður og skrifuð nefndarálit í fortíð sem hverfast um það sama, að lögformlega og rétta leiðin sé í fullum samhljómi við það sem okkar færustu fræðimenn hafa lýst, að ef við ætlum okkur að sækja naglfasta og varanlega fyrirvara sé það bara gert á einum stað og það er í sameiginlegu EES-nefndinni, að þeir fyrirvarar séu settir inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Sér hv. þingmaður þetta mál á sama hátt og ég lýsti hér?