149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög réttmæt spurning hjá hv. þingmanni. Hvað gerist? Hvers vegna falla menn frá því sem þeir hafa ályktað um? Hvers vegna framfylgja þeir ekki stefnuskrá sinna flokka? Hvers vegna framfylgja þeir ekki vilja flokksmanna sinna? Hvers vegna framfylgja þeir stefnu sem mikill meiri hluti þjóðarinnar er andvígur? Hvers vegna fylgja þeir stefnu þar sem meiri hluti umsagna um mál er neikvæður, eins og gerist í þessu máli í þeim umsögnum sem komu fyrir utanríkismálanefnd? Fyrir því eru einhverjar ástæður sem hafa ekki komið hér fram og sem er nauðsynlegt að fá vitneskju um og að menn skýri þá nánar. Jú, það hefur verið sagt að hugsanlega gæti EES-samningurinn verið í uppnámi ef farin yrði sú samningsbundna og lögformlega leið að óska eftir undanþágu. Það hafi aldrei verið gert í 25 ár og hugsanlega geti samningurinn farið í uppnám.

Hér var beitt 26. gr. stjórnarskrárinnar sem hafði ekki verið beitt hátt í heilan mannsaldur. Fór allt í uppnám, fór stjórnarskráin í uppnám við það? Nei, síður en svo.

Fyrir þessu eru einhverjar ástæður og menn þurfa að fara ofan í kjölinn á þeim. Varðandi það að hér fari allt í uppnám hvað EES-samninginn varðar þá liggur eitt álit fyrir í þeim efnum sem mér finnst ekki vera nægilega rökstutt. (Forseti hringir.) Þetta eru réttmætar og eðlilegar spurningar.