149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er ekki heil brú í þessu, það er vel mælt hjá hv. þingmanni, að keyra mál í gegn á næturfundum, eins og hv. þingmaður nefndi, mál sem stjórnarliðar segja síðan að skipti engu máli. Þetta er mjög einkennilegur málflutningur og maður spyr: Hvers vegna er verið að keyra þetta í gegn á þessum tíma? Er ekki eðlilegt að fresta þessu máli fyrst að almenningur hefur miklar áhyggjur af því? Er ekki eðlilegt að kynna málið fyrir almenningi, fá þjóðina á sitt band? Ef það hefur engar afleiðingar fyrir okkur, er þá ekki hægt að kynna málið fyrir almenningi, fresta því fram á haust og fara yfir öll álitaefni hvað það varðar, sérstaklega það sem lýtur að því að sannfæra almenning? Er ekki mikilvægt fyrir ríkisstjórnina að hún fái almenning á sitt band í svona máli? Þá þarf hún ekki að hafa áhyggjur af því að það sé verið að keyra eitthvað í gegn sem síðan geti valdið miklum deilum í þjóðfélaginu síðar meir þegar í ljós kemur að málið hefur mikil áhrif.

Við Miðflokksmenn höfum bent á það í okkar málflutningi að þessi sami tónn var í umræðunni þegar orkupakki eitt og tvö voru innleiddir, þeir áttu ekki að hafa nein áhrif á raforkuverð. Annað kom á daginn sem við höfum sýnt fram á með rökum. Þess vegna er mikil hætta á því að það sama muni gerast með (Forseti hringir.) innleiðingu þriðja orkupakkans.