149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:26]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Fyrst skal það sagt að auðvitað viljum við að álverin greiði sem mest fyrir orkuna sem þau nota. En við viljum ekki að þau greiði það mikið að þau hrekist úr landi eða sjái sér ekki hag í því að starfa hér.

En til að svara spurningu hv. þingmanns er auðveldast að vísa einfaldlega í orð forstjóra Landsvirkjunar sem taldi afar mikilvægt að samþykkja þriðja orkupakkann til að styrkja samningsstöðu fyrirtækisins gagnvart álframleiðendum. Sem segir okkur bara það að forstjórinn dregur þá rökréttu ályktun að orkupakkanum fylgi sæstrengur og útflutningur orku og þar af leiðandi sama orkuverð og í Evrópu.

Því að ef það væri rétt sem stjórnarliðar hafa reynt að halda fram, að samþykki þessa orkupakka breyti í rauninni engu á meðan ekki er sæstrengur og það sé ekkert víst að hann komi, þá myndi þetta væntanlega ekki hnika til á nokkurn hátt samningsstöðu varðandi raforkuverð.

Við verðum að haga málum þannig áfram, og við höfum sem samfélag líklega ekki gert nógu mikið af því síðustu árin, að orkan nýtist í þeim tilgangi að skapa störf hér á Íslandi. Ekki hvað síst þá að hún nýtist um leið til að renna traustari stoðum undir byggðirnar hringinn í kringum landið.

Ef við förum að líta þannig á að þetta sé algerlega úr tengslum hvort við annað, annars vegar bara hagnaður Landsvirkjunar af því að selja orku á sem hæstu verði, og svo hins vegar byggðaþróunin, þá erum við að kasta frá okkur líklega mikilvægasta tækinu okkar til að efla byggðirnar.