149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:30]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Já, því miður hefur skort á skilning á þessu víða. Mér hefur til að mynda alltaf þótt viðhorf Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs til álframleiðslu mjög sérkennilegt. Með því að framleiða ál á Íslandi með umhverfisvænum, endurnýjanlegum orkugjöfum, erum við að spara gríðarlega losun gróðurhúsalofttegunda miðað við það ef sama framleiðsla færi fram annars staðar. En hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði hafa menn verið mjög afmarkaðir í sinni umhverfisvernd og eingöngu litið til þess sem þeir sjá á Íslandi.

Við þurfum, til að vernda umhverfi jarðarinnar og náttúru, að líta á þetta hnattrænt, líta á þetta sem heild. Það að framleiða umhverfisvænan málm eins og ál á Íslandi er mikilvægur liður í því að verja náttúru og loftslag jarðarinnar.