149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:37]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Já, í rauninni er það óskiljanlegt að menn skuli ekki hafa farið í eins mat á Íslandi og menn gerðu í Noregi á áhrifum þessarar innleiðingar. Það helgast kannski af því að þetta hefur frá upphafi verið mál sem ríkisstjórnin hefur viljað láta lítið fara fyrir og ekki beinlínis verið að leita að einhverju sem gæti verið til þess fallið að vekja á því athygli, að ég ekki tali um neikvæða athygli.

Eftir á að hyggja hefði reyndar verið mjög æskilegt að á þeim tíma þegar hæstv. fjármálaráðherra sá ástæðu til að gagnrýna í hvað stefndi varðandi þennan orkupakka og sameiginlegu orkustofnunina ACER og þetta allt saman, að hann hefði brugðist við með því að láta skoða þetta. En ekki ætla ég að álasa fyrir það. Hann sá kannski ekki fyrir á þeim tíma að hann myndi á endanum lenda í því, (Forseti hringir.) ef svo má segja, að skipta um skoðun á málinu.