149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég sagði frá því í síðustu ræðu minni að ég ætlaði mér í næstu ræðum að fara yfir sjónarmið tveggja lykilmanna úr Sjálfstæðisflokknum í gegnum áratugina og draga fram þær áhyggjur sem þeir lýsa varðandi það hvernig umhverfi orkustýringar verður að aflokinni lagningu sæstrengs.

Ég ætla að leyfa mér að koma fyrst inn á grein eftir fyrrverandi menntamálaráðherra, ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Tómas Inga Olrich, sem birtist í Morgunblaðinu 27. apríl sl. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stökkbreyting hefur orðið á þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Hún virðist hafa orðið í kjölfar þess að skýrsla þeirra lögfræðinganna, Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, var lögð fram. Í skýrslunni er bent á tvær leiðir til að fást við þriðja orkupakkann.

Önnur leiðin er sú að aflétta ekki stjórnskipulegum fyrirvara um innleiðingu orkupakkans og taka málið upp, eins og ráð er fyrir gert, við sameiginlegu EES-nefndina. Leiðin býður upp á sóknartækifæri. Færu Íslendingar þá leið væru þeir að sækja rétt sinn til að fá undanþágu frá því regluverki orkumála ESB, sem ekki snertir Ísland. Forsenda leiðarinnar er að þessi réttur standi undir nafni. Ef hann gerir það ekki eru það ekki síður mikilvægar upplýsingar.“

Þarna er einmitt komið inn á mikilvægt atriði að mínu mati þar sem kallað er eftir því að látið verði reyna á það hvort 102. gr., þótt hún hafi ekki verið virkjuð hingað til, sé ekki raunverulega virk og tæk fyrir aðildarríkin og málið sent aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Í þessari umræðu hefur því verið haldið fram að 102. gr. sé ekki raunverulega virk leið af því að hún hafi aldrei verið notuð. Það hefur verið sagt hér til samlíkingar að það sé eins og að segja að þegar kviknar í húsi ættu menn ekki að nota slökkvitækið af því að það hafi aldrei verið notað áður. Það dregur auðvitað fram fáránleikann í því að við látum ekki reyna á þær heimildir sem við höfum sannarlega innbyggðar í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Sú nálgun er því miður varða á þeirri leið að grafa undan samningnum miklu frekar en að viðhalda honum og styðja.

Með leyfi forseta, þá heldur fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins áfram:

„Hin leiðin er að innleiða orkupakkann í íslenskan rétt en „með lagalegum fyrirvara um að ákvæði hans um grunnvirki yfir landamæri […] öðlist ekki gildi, enda er slíkum grunnvirkjum ekki fyrir að fara hér á landi“. Þessi leið þýðir í raun að gildistöku hluta orkupakkans er frestað uns Ísland hefur tengst orkumarkaði ESB/EES um sæstreng. Það er hefðbundið undanhald og tæplega hægt að tala um það lengur sem skipulagt.“

Þarna kemur nú fram furðu lítt dulbúin harkaleg gagnrýni á það hvernig við höfum haldið á innleiðingarmálum árum saman. Fyrrverandi ráðherra lýsir þessu sem óskipulegu undanhaldi, sem er sennilega það undanhald, hvort sem það er í viðskiptum, ríkjasamskiptum eða stríði, sem mest tjón skapast af.

Með leyfi forseta, heldur hann áfram:

„Áfangar undanhaldsins eru margir og meira eða minna þekktir. Þannig hafa nú allir leyfi til að fjárfesta í íslenskum bújörðum og sanka að sér náttúrulegum auðlindum í krafti þeirra réttinda. Girðingar, sem settar voru 1995, voru teknar niður þegar athugasemdir og hótanir um kærur bárust um og eftir aldamótin síðustu. Með sambærilegum hætti hafa varnir íslensks landbúnaðar hrunið. Það eru sem sagt ýmsar leiðir sem íslensk stjórnvöld hafa kosið sem áfanga í undanhaldi sínu. Sú síðasta er sú hefur nú valdið stökkbreytingu innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins.“

Það er auðvitað ekkert hægt að orða gagnrýnina mikið skýrar hjá manni sem ég held að vilji samt tala varlega í garð þess flokks sem hann hefur sinnt æðstu embættum fyrir. (Forseti hringir.) En af því að hv. þm. Vilhjálmur Árnason hefur fylgst af athygli með umræðunni undanfarið, (Forseti hringir.) og kann ég honum þakkir fyrir, þá vona ég að hann komi hér til skrafs og ráðagerða (Forseti hringir.) um þessi sjónarmið á eftir.