149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:52]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir ræðuna. Hún er til þess fallin að varpa ljósi á afstöðu þess flokks sem verið hefur leiðandi afl í stjórnmálum á Íslandi um áratugaskeið og fagnar á morgun, ef ég er rétt staddur í tíma, 90 ára afmæli sínu. Er það rétt með farið hjá mér? Og á slíkum tímamótum er ekki að undra að þessi flokkur sé á þeim stað að spyrja sig hvort hér sé komið að vatnaskilum í stefnu og áherslu flokksins sem hafa þó skilað þessu stjórnmálaafli mjög svo viðunandi niðurstöðu síðustu áratugina. Hér hafa Sjálfstæðismenn farið með völd í íslensku samfélagi meira og minna þessi 90 ár. Og af hverju skyldi það nú vera? Jú, vegna þess að þeir hafa gengið í takt við stóran hluta kjósenda og fengið fylgi til þess að gera það. Og á hverju var stefnan mörkuð? Hún var mörkuð á kjörorðum sem hljóma svo: „Stétt með stétt“, breiðri skírskotun, til þess að flokkurinn stæði vörð um hag allrar þjóðarinnar. Það hafa þeir gert þótt kannski sé hægt að benda á einhver dæmi þar sem betur hefði mátt gera.

En er ekki komið að vatnaskilum (Forseti hringir.) hjá Sjálfstæðisflokknum, hv. þingmaður?