149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Veldur hver á heldur. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þórhallssyni andsvarið. Það fer ekkert á milli mála í gagnrýni þessara tveggja fyrrverandi ráðherra flokksins sem ég ætla að fjalla hér svona lauslega um í þessari ræðu minni og næstu, að það eru raunverulegar áhyggjur af því á hvaða vegferð Sjálfstæðisflokkurinn er í þessu máli. Það er greinilegt að áhyggjur reynslumanna í flokknum lúta m.a. að því að eitthvert rof sé að verða á milli hluta forystunnar og kjarnafylgisins. Alla vega eins og málið horfir við mér er það ekki borið fram á fyrri stigum af þingflokknum í heild sinni með fullu „backupi“, heldur þvert á móti. Það virðist fyrst og fremst vera borið fram af áhuga hæstv. utanríkisráðherra á að koma þessu vandamáli aftur fyrir sig í tíma, klára málið. Illu er best aflokið. Þetta horfir þannig við mér þannig að áhuginn liggi fyrst og fremst hjá hæstv. utanríkisráðherra. Að þeirri niðurstöðu kemst ég að bara út frá því að horfa á annars vegar hvað formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, hefur sagt um þessi mál, og hins vegar að hæstv. iðnaðarráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir virðist ekki sjá neinn meinbug á því að fresta málinu, a.m.k. fram á næsta haustþing. Þannig að enginn er asinn. (Forseti hringir.)

Þetta er, held ég, hluti af því sem orsakar hinar miklu áhyggjur þessara tveggja fyrrverandi forystumanna (Forseti hringir.) sem vilja auðvitað flokknum sínum vel.