149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:57]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni svarið. Ástæða þess að ég bar þetta upp hér er sú að ég held að ég hafi rekið augun í blaðaviðtal við hv. þingmann og núverandi ritara Sjálfstæðisflokksins, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þar sem hún lýsir því að stjórnvald taki breytingum og stefnan breytist. Það er allt gott og vel og rétt. En ég hafði á tilfinningunni að í þeim pistli hafi hún á ákveðinn hátt verið að svara fyrrverandi formanni flokksins, Davíð Oddssyni, sem hefur skrifað greinar í Morgunblaðið þar sem hann hefur, án þess að fegra hlutina, farið nokkuð berum orðum um að hér sé flokkurinn búinn að segja skilið við sjálfstæðisstefnuna þó svo að hann haldi kannski nafninu, Sjálfstæðisflokkur. (Forseti hringir.)

Getur verið að það sé eðlileg greining hjá mér, hv. þingmaður?