149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ég held að þetta sé nú einmitt þannig vaxið að enn sé ekki öll nótt úti fyrir þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Það eru enn tækifæri til að bjarga í horn í þessu mikilvæga máli. Menn hafa auðvitað, má segja, komið sér í ákveðin vandræði, bæði pólitísk og persónuleg, með því að kyngja þessari fyrirvaranálgun. En burt séð frá því að menn eiga það til að koma sér í bobba, menn og konur, út af hinum ýmsu málum, þá skiptir mestu máli í þeim efnum að hafa kjark til að stíga eitt eða tvö skref til baka og reyna að finna taktinn aftur, taktinn sem hefur gagnast hinum merkilega Sjálfstæðisflokki svo vel í 90 ár.