149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:07]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nú fer því fjarri að sá sem hér stendur sé sérfræðingur í Sjálfstæðisflokknum. En það er eiginlega tvennt sem er að velkjast í hausnum á mér þessa stundina. Það er í fyrsta lagi að það sé ekki einungis, hvað á ég að segja, orðinn svona brestur milli þingflokks og stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins, heldur er vantraust orðið líka sem stuðningsmenn, grasrót, eða hvað við viljum kalla það, Sjálfstæðisflokksins bera til þingmanna sinna. Það skýrist kannski líka af því að Sjálfstæðisflokkurinn lofaði á landsfundi í fyrra eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“

Nú veit ég ekki hvað öðrum hér inni finnst, en ég er ekki á því að Sjálfstæðisflokkurinn standi við þessa yfirlýsingu. Ég er ekki á því, og þá er ég náttúrlega að tala um þingflokk flokksins, því að aðrir hafa ekki áhrif í þessu efni en þingmenn, eða þingflokkurinn. Það væri fengur að því fyrir mig að fá að heyra álit manns sem þekkir — ég sagði einhvern tíma í kvöld, myrkviði Sjálfstæðisflokksins, en það er nú líklega dónaskapur, þannig að ég hefði átt að segja innviði Sjálfstæðisflokksins.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort það geti verið að einmitt sú staðreynd að menn eru í raun, líkt og Framsóknarflokkurinn, að ganga á bak orða sinna hvað þetta varðar, hvort það geti haft þau áhrif um þá óánægju sem maður verður var við í stuðningsmannaliði Sjálfstæðisflokksins.