149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og athyglisvert hvernig hann lagði þetta upp. Vitnaði í Ögmund Jónasson, fyrrverandi þingmann og ráðherra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, þingmann sem gat sér mjög gott orð fyrir staðfestu og málflutning sem eftir var tekið. Hann hefur einmitt látið í sér heyra og látið til sín taka í þessari orkupakkaumræðu og hefur gagnrýnt flokk sinn harðlega fyrir framgönguna, og á hann lof skilið fyrir að gera það. Það er mikilvægt að minna á hverju stjórnmálamenn hafa lofað eða hverju þeir hafa staðið fyrir og hvernig þeir breyta síðan um skoðun í svo mikilvægu máli sem vekur náttúrlega upp ýmsar spurningar. Hvers vegna? Það hljóta að vera einhver haldbær rök fyrir því sem menn verða þá að koma fram með. Ég hef ekki orðið var við að þeir hafi rökstutt mál sitt með þeim hætti að maður sýni því skilning að þeir hafi skipt um skoðun. Það er ekkert að því að skipta um skoðun. Menn þurfa þá náttúrlega að rökstyðja sitt mál, en það er erfitt að rökstyðja það að skipta um skoðun í svo veigamiklu og stóru máli sem þessu.

Það sem ég vildi kannski fá fram hjá hv. þingmanni í þessum efnum er hvers vegna svona umhverfissinnaður flokkur er að greiða götu fyrir verkefni, sem er orkupakki þrjú, sem getur haft umhverfislega mjög mikil áhrif á Íslandi þegar sæstrengur kemur og orkusala hefst. Orkuvinnsla eykst í öllu landinu á kostnað náttúrunnar.