149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:22]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Já, það er nú svo að þessi orkupakki snýst að stóru leyti um umhverfismál, þó að hann beri það ekki utan á sér, ef svo má að orði komast. Það er ein ástæða þess að hér hefur til að mynda verið kallað eftir afstöðu ráðherra, sem reyndar er utanþingsráðherra og fer með málaflokk umhverfismála en situr fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð.

Varðandi grein Ögmundar Jónassonar og reyndar þá grein sem hv. þm. Bergþór Ólason vitnaði í hér áðan eftir Tómas Inga Olrich, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, þá verðum við að gera okkur grein fyrir því að það er ekkert léttmeti fyrir slíka menn að gagnrýna flokk sinn og stefnu hans opinberlega. Eitt er að gera slíkt, að gagnrýna stefnu eða koma að mótun stefnu innan búðar. Annað er að gera það á opinberum vettvangi. Hví minnist ég á það? Jú, það þarf að vera þannig að það séu mikilsverð mál, stór hagsmunamál, sem gefa vísbendingu um að verið sé að bregða frá stefnu um samfélagssáttmála, sem allir flokkar eru sammála um, til að menn geri slíkt. Samfélagssáttmálinn snýst um það að vera í grunninn sammála um í hvernig samfélagi við viljum búa. En við erum bara ekki alveg sammála um leiðirnar sem við viljum fara að því að ná markmiðunum.