149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég held að ég vilji aðeins skoða þetta mál út frá alþjóðasamskiptum. Við erum lítil þjóð sem á að sjálfsögðu mikið undir alþjóðasamskiptum og alþjóðasamningum. Við í Miðflokknum erum að sjálfsögðu hlynntir því að við eigum góð samskipti við nágrannaþjóðir okkar og þjóðir almennt. Það er mikilvægt fyrir litla þjóð að eiga góð samskipti við erlendar þjóðir.

Ég hafna algjörlega innstæðulausum yfirlýsingum sem hafa komið frá nokkrum stjórnarþingmönnum og reyndar stjórnarandstöðuþingmönnum líka í okkar garð þess efnis að við séum einhver einangrunarsinnaflokkur, einangrunarsinnar. Þetta er eins fjarstæðukennt og hægt er að hafa og er bara dæmi um að menn séu rökþrota.

Það er einmitt akkúrat þetta sem við eigum að gera. Við eigum að vera gagnrýnin á samskipti okkar þegar kemur að svona alþjóðasamningum, mikilvægum samningum þegar okkur finnst á okkur hallað. Í þessu máli hallar náttúrlega á okkur. Lagt er hart að okkur að samþykkja tilskipun sem getur haft mikil áhrif á okkur sem þjóð. Þess vegna eigum við náttúrlega að leita leiða til að fá það viðurkennt að við njótum sérstöðu og höfum sérstöðu og fá þá sérstöðu viðurkennda með lögformlegum hætti. Ég myndi því segja í þessu öllu saman að mestu skipti að vera ekki með einhverja óttablandna virðingu gagnvart erlendum þjóðum, eins og mér finnst birtast í þessu máli af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.