149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:27]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það mál sem hefur komið upp í ræðum að hér standi Miðflokkurinn einangraður í sinni einangrunarhyggju og einangrunarstefnu er náttúrlega varla svaravert. Það er nú bara svo. Það er ekkert fjær okkur Miðflokksmönnum en að reyna að einangra Ísland. Við viljum hins vegar standa fyrir hagsmuni Íslands og mér finnst það vera skylda okkar í hvívetna.

Það er svo merkilegt að þeir sem svona tala geta hins vegar verið á tyllidögum mjög upprifnir yfir því að Ísland sé landið, Ísland sé stórkostlegt og þjóðin sé á heimsmælikvarða, til að mynda ef stórir íþróttaviðburðir eru í gangi, ef landsliðið okkar keppir í íþróttum eða ef Íslendingar ná árangri á einhverju sviði eða afreka eitthvað, hvort sem það er á sviði vísinda eða á sviði þess að klífa hæstu fjallstinda. Þá erum við þjóðin, stolt, og með mikla reisn og þá hreykjum við okkur á einhvern hátt, sem ég held að sé eðlilegt. Það er ekkert athugavert við það að vera stoltur af þjóð og uppruna, sögu og menningu og sérstöðu. Það að vera það þýðir alls ekki að við viljum ekki eiga samskipti við aðrar þjóðir eða koma að alþjóðlegum samningum. Þetta er algerlega út í heiðblátt himinhvolfið, hv. þingmaður.