149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:34]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst aðeins drepa á það að minn forni vinur, Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins — ég vona nú að við séum vinir enn — hefur þá sérstöðu í Framsóknarflokknum að vera Evrópusinni. Þannig að ég á ekki von á því að hann muni úttala sig mjög hvasst um þessa þróun.

Það er hins vegar annað sem ég hef velt dálítið fyrir mér, sérstaklega nú í dag og undanfarna nótt. Ég fór að velta því fyrir mér að kannski væri æskilegt eða áhugavert fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hér sitja, það væri kannski bara greiði við þá, að afgreiða ekki þetta mál í dag sem við erum að ræða núna. Þannig að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eigi kost á því að hitta stuðningsmenn sína á 90 ára afmælisdaginn yfir köku og kaffi án þess að vera búnir að læsa þetta mál inni með því að samþykkja það.

Ég hef þá trú og það virðist vera að menn hafa ekki hlustað á baklandið. Ég held að það sé algerlega ljóst. Í öllum þessum flokkum held ég að það sé klárt að menn hafi ekki hlustað á baklandið. Þess vegna vil ég heyra ofan í hv. þingmann, sem þekkir Sjálfstæðisflokkinn betur en ég, hvort það geti ekki verið rétt hjá mér að það væri bara greiði við þá Sjálfstæðisþingmenn sem hér sitja að vera ekki að ljúka þessu máli hér í dag, þannig að þeir geti þá alla vega gengið með það ósamþykkt til fundar við fylgismenn sína á morgun, á 90 ára afmælisdaginn.