149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samningi.

777. mál
[03:37]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Varðandi Framsóknarmennina nefndi ég þá einmitt af þeirri ástæðu að Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður flokksins, hefur þá sérstöðu að vera Evrópusinni.

Ef það væri nú svo að fólkið sem kýs Framsóknarflokkinn og vinnur störfin í flokknum, í félögunum úti um landið, væri fylgjandi þessu máli væri örugglega hljómgrunnur fyrir fyrrverandi formann flokksins að viðra þá hugmynd sína ef hann væri fylgjandi þessari stefnu, að það væri skref í rétta átt að taka skref nær Evrópusambandinu. Það hefur hann ekki gert og þess vegna ég drap á þetta.

Varðandi spurningu hv. þingmanns, hvort það geti verið greiði við Sjálfstæðisflokkinn að fresta þessari umræðu og leyfa flokknum að halda þetta stóra afmæli og taka umræðuna í baklandi sínu án þess að vera búin að læsa málið inni, þá held ég að það væri mjög gott. Málið er á forræði flokksins. Við erum ekki að þvinga þá til þess að vera læstir inni í einhverjum skáp og þurfa að fara inn í afmælisveisluna með einhvern klafa á bakinu sem þeir þurfa ekki að hafa. Flokkurinn hefur forræði á málinu. Hæstv. utanríkisráðherra er jú Sjálfstæðismaður og gæti sem best breytt þeim farvegi sem málið er í.