149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:47]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Framan af þessari umræðu var ég hvorki upptekinn af þeirri hugsun né þótti mér hún afskaplega líkleg. En hitt er annað mál að það er eiginlega tvennt í þessu, í fyrsta lagi það sem hv. þingmaður nefnir og er alveg hárrétt, að flokkarnir eru að ganga alveg út á brún þess að svíkja sína grundvallarstefnu. Og í öðru lagi er eiginlega hægt að tala um samruna, finnst mér, VG og Sjálfstæðisflokksins vegna þess að málefnin virðast hafa lekið á milli. Þá er ég að tala um annars vegar markaðsvæðingu orkunnar í boði Vinstri grænna og hins vegar marxistavæðingu heilbrigðiskerfisins í boði Sjálfstæðisflokksins, þetta rennur saman.

Þarna finnst mér báðir flokkar, réttilega eins og hv. þingmaður segir, vera í raun að svíkja grundvallarstef sín í pólitík. Síðan dinglar þriðji flokkurinn í smekkbuxum og með axlabönd og belti, álímdan hártopp og í nýjum skóm og hefst lítið að.

Ég gæti alveg verið inni á því eftir því sem maður heyrir í fólki, sáróánægðu, úr öllum þessum þremur flokkum, að því gæti hæglega verið refsað eftir að hafa samþykkt þessa gjörð sem við erum búin að ræða í þennan tíma. Eigingjarnt hugsað þá væri kannski réttast fyrir flokk eins og Miðflokkinn að hleypa þessu máli í gegn, láta skeika að sköpuðu og sjá til hvort þeir flokkar sem að þessu stóðu yrðu ekki hirtir rækilega. En það er ekki það sem ábyrgir stjórnmálaflokkar gera þannig að auðvitað gerir Miðflokkurinn það ekki. Hann heldur áfram að berjast, eins og Styrmi Gunnarsson tók réttilega eftir, fyrir þjóðarvilja.