149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna enn einu sinni til orða Styrmis Gunnarssonar. Það sem hann sagði fyrir nokkrum vikum síðan, ef ég man rétt, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir þá breidd, sem komin er í andstöðuna halda einstakir þingmenn stjórnarflokkanna, og þá fyrst og fremst þingmenn Sjálfstæðisflokksins, áfram að tala eins og vélmenni, hafa uppi sömu setningarnar um að þeir einir séu handhafar staðreynda málsins en allir aðrir hafi uppi lygar, auk þess að uppnefna flokkssystkini sín.

Sá málflutningur bendir ekki til að þeir hinir sömu telji sig þurfa að hlusta á fólkið í landinu, að ekki sé talað um að þeir átti sig á að það kemur dagur eftir þennan dag.“

Það er akkúrat mergurinn málsins, ég held að þetta ágæta fólk sé að misskilja vilja þjóðarinnar vegna þess að það hlustar ekki.