149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög áhugaverður vinkill sem hv. þingmaður kemur hér fram með og áhugaverðar upplýsingar, vegna þess að það eru náttúrlega samfylkingarflokkarnir sem talað hafa mest um þessa svokölluðu neytendavernd hér inni. Ég hef það á tilfinningunni núna, ekki síst eftir að við erum búin að fá upplýsingar sem liggja fyrir um neytendaverndina og samkeppnina sem talað er um; þar að baki eru einhverjir draumar um að hægt sé að vinna að því að skipta upp orkufyrirtækjum í almannaeigu.

Ég sé engan annan tilgang með þeirri orðræðu sem verið hefur í gangi undir ábreiðu sem kölluð er neytendavernd. Undir ábreiðunni, þar sem áhuginn liggur, er sem sagt þessi svokallaða aukna samkeppni. Og þessi svokallaða aukna samkeppni getur ekki orðið nema með uppskiptingu stærstu fyrirtækjanna. Mér hefði fundist það heiðarlegra að menn kæmu hér fram og segðu beint: Jú, við viljum skipta upp orkufyrirtækjum þjóðarinnar. Jú, við viljum einkavæða orkufyrirtæki þjóðarinnar.

Þessi setning hefur reyndar dúkkað upp í Sjálfstæðisflokknum öðru hvoru, helst rétt fyrir landsfund til að hægt sé að tala um eitthvað á landsfundinum og tala við extra hægrið undir borðum á landsfundi. Ég held samt sem áður, og ég myndi vilja spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir það með mér, að þetta sé ástæðan fyrir þessari svokölluðu neytendaverndarumræðu, að hún sé bara yfirskin vegna þess að menn vilja aukna samkeppni á markaðnum og skipta upp fyrirtækjum.