149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er mjög athyglisverð kenning hjá hv. þingmanni og ég held að hún gæti vel átt við rök að styðjast. Það var athyglisvert að hlusta á útvarp Sögu núna fyrir skömmu en þar var gestur sem heitir Páll Vilhjálmsson. Hann er þjóðfélagsgagnrýnir og hefur haldið úti bloggsíðu í mörg ár og er margt ágætt sem kemur fram frá honum.

Páll bendir á að það sé ekki reynsla annarra þjóða að neytendavernd eigi sérstaklega upp á pallborðið hjá Evrópusambandinu. Hann nefnir skemmtilegt dæmi sem rétt er að nefna hér, með leyfi forseta: Húsmóðir á Spáni getur t.d. ekki þvegið þvott um miðjan dag vegna þess að þá er rafmagnið svo dýrt. En hér á Íslandi geta húsmæður eða -feður bara sett í þvottavélina þegar þeim sýnist. Við búum við orkuöryggi og við búum við lágt orkuverð. Það hefur enginn verið að kvarta yfir því að neytendavernd í orkumálum sé léleg á Íslandi.

Ég er alveg sammála Páli Vilhjálmssyni hvað þetta varðar. Það hefur enginn kvartað yfir því að það ríki slæmt ástand í neytendavernd á Íslandi. Það er innflutt orðræða frá Evrópu, vil ég meina, og tek þar undir það sem Páll Vilhjálmsson segir á bloggsíðu sinni um þetta, verið er að setja eitthvað í sérstakan búning sem menn hafa svo gleypt yfir hér heima. Þetta er bara allt annað markaðssvæði. Hér eru erum við rúmlega 340.000 og Evrópumarkaður eru 500 milljónir manna. Þannig að það sjá allir að við eigum ekkert sameiginlegt með þeirri markaði.