149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er athyglisvert. Einnig hafa komið fram upplýsingar um að t.d. í Noregi — við höfum verið dálítið að tala um Noreg í þessari umræðu — sé rafmagnsverð að breytast fjórum til átta sinnum innan dagsins, ef ég man rétt. Verðið er hæst þegar það nálgast það að menn fari að elda kvöldmat eða eitthvað slíkt, upp úr fjögur, ef ég man rétt, og slær svo niður klukkan átta og þá er það búið að breytast á undan. Það er búið að hækka þegar menn eru að elda hafragraut á morgnana og eitthvað því um líkt. Þannig að menn þurfa nánast að vera með opna heimasíðu til að kanna kílóvattstundarverðið á hverri mínútu dagsins og haga sér samkvæmt því. Ég veit ekki hvort þetta er draumsýn þeirra sem eru að reyna að böðla þessu máli hér í gegnum þingið á engum tíma. Ég velti því fyrir mér.