149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:22]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir afbragðsgóða ræðu sem snertir einn af þeim aðalpunkturinn sem verið hafa í málflutningi þeirra sem eru fylgjandi þessum orkupakka, þ.e. neytendavernd. Hæst hefur þingflokkur Viðreisnar talað um að þessi orkupakki snúist svo sem ekki um neitt annað en gagnsæi og neytendavernd. Annað sé ekki í honum. Þess vegna ætti fólk að vera sammála um að samþykkja pakkann án frekari skoðunar vegna þess að í honum sé ekkert annað. Þeir sem ekki stökkva umsvifalaust á þennan vagn eru einfaldlega popúlistar, afturhaldssinnar og einangrunarhyggjumenn. Grafa sig hreinlega inn í barð hérna einhvers staðar og vilja ekki af neinum vita.

Staðreyndin er sú að neytendaverndin í þessu er akkúrat ekki nein vegna þess að orkuverðið sem við Íslendingar greiðum sjálfum okkur fyrir er raunverulega kostnaðarverð framleiðslunnar. Það er sáralitlu bætt þar ofan á. Það sem við greiðum umfram er raunverulega það sem notað er til að byggja upp flutningsgetu kerfisins. En að meginhluta til er það gert af stórkaupendum raforkunnar. Þannig að ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni og langar að varpa til hans þeirri spurningu hvort ég hafi misst af einhverju í þessum orkupakka sem snýst um neytendavernd og mun vera okkur Íslendingum til hagsbóta.