149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:26]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, varðandi Viðreisn og málflutning flokksins þá var flokkurinn í síðustu ríkisstjórn árið 2017, sem er einmitt það herrans ár sem sameiginlega EES-nefndin komst að þeirri niðurstöðu að senda tilskipunina til sinna ríkja til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Af hverju var það þá ekki gert með hraði? Þar var annar flokkur sem var það sem kallað er frjálslyndur flokkur, Björt framtíð, en hann er reyndar ekki til núna. Þar fór Sjálfstæðisflokkurinn líka með veigamikið hlutverk og þá virðist alla vega ekki hafa legið á eins og nú. En þar var Viðreisn í dauðafæri að höggva nærri þessu, að tryggja neytendavernd um alla framtíð og koma málinu í gegn. En það gerðist ekki. Hvers vegna telur hv. þingmaður að það hafi verið?