149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er að sjálfsögðu mjög athyglisvert. Þeir voru þarna í samstarfi við Bjarta framtíð og Sjálfstæðisflokkinn, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega. Það skyldi þó ekki vera að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eitthvað reynt að malda í móinn varðandi þetta. En þeir gera það a.m.k. ekki í dag. Það er alveg ljóst.

Kjarni málsins er einfaldlega sá að þarna er orðræða sem kemur beint frá Evrópu og er þýdd yfir í samninginn hér. Menn halda að þetta sé heilagur sannleikur, að það verði svo mikil neytendavernd sem fylgi þessu að menn geti lækkað orkureikninginn um háar fjárhæðir ef þeir skipta um orkusala. Það er bara rangt. Við erum búnir að sýna fram á það eins og margt annað sem við höfum sagt um þessi mál að er vanreifað hjá ríkisstjórninni og rangfærslur sem nauðsynlegt er að leiðrétta.