149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:29]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að ég gerði svo sem engar athugasemdir við það þegar stuðningsmenn innleiðingarinnar á þriðja orkupakkanum héldu því fram í ræðum, rétt í byrjun síðari umr. meðan þingmenn tóku þátt í umræðunni, að eitt af meginatriðum þessarar innleiðingar væri hin mikla neytendavernd og tækifæri til lækkunar raforkuverðs sem fylgdi innleiðingu þriðja orkupakkans.

Menn eyddu ekki miklum tíma í að nefna svigrúm neytenda til að skipta um orkusala, það er löngu til komið, það er ekki að koma til núna. En það sem stóð upp úr hjá stuðningsmönnum innleiðingarinnar — ég man sérstaklega eftir því að hv. formaður utanríkismálanefndar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, talaði ítrekað um það og ýmsir tóku undir það, og það er vinnunnar virði að renna í gegnum ræðurnar hvað það varðar — en talað var ítrekað um tækifæri heimila til að lækka orkureikning sinn um allt að 2.500 kr. á mánuði, ég man að sú tala var nefnd, eða um 30.000 kr. á ári.

Þetta er allt saman mjög sérstakt í samhengi við þær upplýsingar sem hv. þm. Birgir Þórarinsson benti á úr skýrslu verkfræðistofunnar EFLU, að það sé vel innan við prósent landsmanna sem hafi nýtt sér þennan möguleika. Og þá ber líka sérstaklega að hafa í huga að það er ekki lítið sem þessi fyrirtæki auglýsa. Þetta eru stórir kaupendur á auglýsingamarkaði þar sem verið er að hvetja til þess að menn færi sig á milli orkusala. En raunin er sú að hér um bil enginn gerir það og síðan er því haldið fram sem einum af kjarna rökum innleiðingarinnar að það séu svo miklir fjárhagslegir hagsmunir af þessu. Það þarf að skoða þetta og sjá hvort eitthvert vit er í.