149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:36]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Virðulegi og sárt saknaði forseti. Ég hyggst halda áfram yfirferð minni yfir efnahagslegar afleiðingar þess að samþykkja þriðja orkupakkann. Ég vísaði í fyrri ræðu til norskrar greinargerðar, norskrar skýrslu, sem dró upp dökka mynd af áhrifunum þar í landi. Ég færði rök fyrir því að þessi áhrif yrðu hlutfallslega enn þá meiri og líklega miklu meiri á Íslandi. Þó var norska skýrslan kölluð svört í Bændablaðinu, og það með réttu.

Ég hafði aðeins tíma til að nefna eitt dæmi. Það var álverið á Austurlandi, sem hefur algjörlega skipt sköpum varðandi byggðaþróun í þeim landshluta. Það væri auðvitað hægt að nefna ótal önnur dæmi um slíkt en ég ætla að láta hjá líða að gera það að sinni, því að það er margt sem ég þarf að komast yfir sem varðar efnahagsleg áhrif þeirra aðgerða sem stjórnvöld boða nú og reyna að knýja í gegn að næturlagi.

Það sem ég hyggst leggja megináherslu á í þessari ræðu er að reyna að sýna fram á að þetta er allt samhangandi. Þetta er ekki bara spurning um að bjóða hefðbundnum iðnfyrirtækjum, stóriðju eða annars konar iðnaði, upp á orku á samkeppnishæfu verði heldur spurning um áhrif slíkrar starfsemi, þ.e. starfsemi sem reiðir sig á orku á samkeppnishæfu verði, á allt hitt.

Sem dæmi má nefna nýsköpun.

Nýsköpun er nátengd því að til staðar séu hefðbundin iðnfyrirtæki því að gjarnan sprettur nýsköpun upp í kringum slíka starfsemi. Um það þekkjum við fjölmörg dæmi hér á Íslandi. Það sama á auðvitað við um alls konar annars konar fyrirtæki, þjónustufyrirtæki sem veita stærri fyrirtækjum hvers konar þjónustu, en einnig sveitarfélögin sjálf og ríkissjóð.

Hvernig fá sveitarfélögin tekjur? Hvernig fær ríkissjóður megnið af sínum tekjum? Það er í formi skatta. Skatta á fyrirtækin sjálf, en ekki síður skatta á launatekjur þeirra sem þar starfa, og ég ítreka ég það, forseti: ekki bara starfsmenn iðnfyrirtækjanna, heldur líka starfsmenn allra þeirra fyrirtækja sem ýmist þjónusta þessi fyrirtæki eða spretta upp sem afleiðing af starfsemi þeirra hér á landi.

Þetta þýðir að ef menn kippa stoðunum undan grunnstarfseminni í þessari keðju — í því dæmi sem ég er að tala um hér væru það hefðbundin iðnfyrirtæki — kippa þeir um leið stoðunum undan fyrirtækjum í hvers konar rekstri og sveitarfélögunum og að einhverju marki, jafnvel töluverðu leyti, ríkissjóði sjálfum.

Það ber að skoða þetta sem eina heild, sem eina samverkandi keðju.

Nú bregður mér í brún, herra forseti, að sjá hvað tímanum líður, því að ég hef ekki náð að klárað þessa yfirferð. Ég var reyndar rétt að ljúka við innganginn að þessari yfirferð og ég á eftir að halda ræðu um vindmyllur. Ég hafði boðað ræðu um útboð vatnsréttinda. Ég hafði nánast gleymt, en rifjaðist upp fyrir mér rétt áðan, að ég var búinn að undirbúa ræðu um kerfisræðið, og hvernig þetta mál er lýsandi fyrir það. Ég hafði lofað að klára söguna um Kýpur. Svo kom hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson með nýja pólitíska kenningu, samrunakenninguna, eins og ég kalla hana, en ég hef áhuga á að bæta aðeins við þá kenningu og þróa hana áfram. Og svo eru það orkumælar Evrópusambandsins. Það er atriði sem rifjaðist upp fyrir mér þegar ég heyrði hv. þingmenn ræða hér um neytendaverndina, hina meintu neytendavernd, í tengslum við þennan þriðja orkupakka.

Það eru því mörg umræðuefni sem bíða hér úrlausnar. (Forseti hringir.) En mikið vildi ég að hæstv. forseti myndi veita mér betri tíma svoleiðis að ég kæmist í gegn a.m.k. eitt atriði í hverri ræðu.