149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:42]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna. Ég kannast við þetta vandamál. Það er erfitt að koma heildstæðum hluta máls frá sér í stuttri ræðu. En það var áhugaverður vinkill sem þingmaðurinn velti upp og ég held að hann skipti miklu máli í tengslum við það sem ég hef í ræðuröð minni, Og hvað svo?, reynt að tengja við myndina sem nauðsynlegt er að draga upp af stöðunni sem verður eftir að sæstrengur hefur verið lagður, þ.e. um mikilvægi stóru iðnfyrirtækjanna fyrir nýsköpun og grósku smáfyrirtækjanna í annars vegar næsta nágrenni fyrirtækjanna og hins vegar þjónustubasa sem byggist upp á landsvísu eftir ákveðnum massa, „critical mass“, hvaða þjónustu og eftirspurn er náð.

Ef við horfum til stöðunnar fyrir austan þar sem er óumdeilt að álverið á Reyðarfirði hefur haft gríðarleg byggðarleg áhrif, þótt auðvitað sé útgerðin sterk: Nú er þetta er kjördæmi þingmannsins. Ef sú sviðsmynd raungerist þannig að verulega sjái á rekstrarskilyrðum fyrirtækisins og álversins á Reyðarfirði eftir að sæstrengur hefur verið lagður og samevrópskt orkuverð leggist yfir, hvaða áhrif sér þingmaðurinn fyrir sér að verði fyrir austan?