149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:44]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að birta neinar dómsdagsspár í þessu svari mínu og ekki að halda því fram að álveri yrði lokað í skyndi við innleiðingu þriðja orkupakkans. En það þyrfti í rauninni ekki lokun til svo þetta hefði veruleg áhrif á öll þessi þjónustufyrirtæki, öll þessi nýsköpunarfyrirtæki, sveitarfélagið o.s.frv., sem verður fyrir þessum miklu áhrifum af því að hafa öflugt iðnfyrirtæki í landshlutanum.

Segjum bara sem svo að fyrirtækið ákvæði að færa framleiðsluna í auknum mæli annað, smátt og smátt, draga úr framleiðslu hér. Slíkt eitt og sér getur sett af stað tiltekna og mjög ískyggilega keðjuverkun. Þá myndu menn í framhaldinu, þeir sem reka fyrirtækið, fara að spara á öðrum sviðum. Afleiðingin yrði þá sú að sparnaðurinn sem fælist í minni framleiðslu hjá aðalfyrirtækinu eða undirstöðufyrirtækinu gæti hæglega leitt af sér margfalt meiri samdrátt hjá öllum hinum fyrirtækjunum vegna þess að viðbrögð fyrirtækisins væru þau að bregðast við skipunum um að draga saman starfsemi hér með því að spara þá í aðkeyptri þjónustu — og augljóslega að gera ekki nýja samninga um við fyrirtæki, til að mynda til að þróa nýja tækni og slíkt. Þessi keðjuverkunaráhrif geta falið í sér margfeldisáhrif.