149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:54]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég var kannski ekki alveg nógu skýr í spurningu minni en hv. þingmaður er glöggur og greip boltann á lofti. Þetta var akkúrat það sem ég var að reyna að koma orðum að og spyrja um. Ef þetta rekstrarfyrirkomulag yrði haft uppi, til hvers yrði þá unnið? Þá gætum við verið í þeirri stöðu að við værum raunverulega búin að skapa gamla iðnaðinum skilyrði sem væru þess eðlis að hann gæti ekki lengur þrifist. Þar af leiðandi myndu ekki myndast störf þar.

Staðreyndin er sú að við raforkuframleiðslu sem slíka skapast tiltölulega fá störf. Þetta er tiltölulega sjálfvirkur iðnaður eftir að búið er að reisa raforkuverin, hvort sem það eru þá vindmyllur eða vatnsaflsstöðvar. Sjálfvirknin er orðin mikil þarna.

Hugsanlega yrðu einhver störf sem myndu tengjast því að viðhalda (Forseti hringir.) stofnvegum að þessum virkjunum eða eitthvað slíkt. En ég held að það sé hverfandi hjá því sem við gætum haft með því að eiga orkuna sjálf og framleiða hana hér fyrir fyrirtæki á Íslandi.