149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:59]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég tel að það sé ekki ofsögum sagt að markmið þessa þriðja orkupakka, eins og þeim er lýst af hálfu Evrópusambandsins, fælu í sér ákveðna aðför að landsbyggðinni á Íslandi. Fyrst hv. þingmaður spyr sérstaklega um þetta gefst mér nú kærkomið tækifæri til að klára tilvitnunina í Árni Steinar Jóhannsson, sem var fulltrúi Vinstri grænna í iðnaðarnefnd árið 2002. Sagði hann þá um innleiðingu annarrar orkutilskipunar Evrópusambandsins:

„Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, lítum svo á að raforkukerfið hér á landi eigi að vera á félagslegum grunni. […] Við lítum á það sem eitt af stoðkerfum landsins.“

Með öðrum orðum, þegar þessi fyrrverandi þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs talar um félagslegan grunn, eins og ég heyrði að hv. þm. Birgir Þórarinsson gerði hér fyrr í kvöld, er hann ekki hvað síst að vísa í að eðlilegt sé að þessi auðlind, sem eðli máls samkvæmt er úti um allt land, hún er reyndar meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, nýtist til uppbyggingar um allt land. Svoleiðis að með hugtakinu félagslegur grunnur er hér ekki bara átt við að arðurinn sé nýttur í velferðarmál eða slíkt, sem hann gerir vissulega líka, heldur að auðlindin sé nýtt sem undirstaða atvinnulífs og byggðar í landinu öllu.