149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þarna held ég að hv. þingmaður hafi nefnilega komið inn á mjög mikilvægan þátt og eiginlega kjarna þessa máls, þ.e. að við nýtum auðlindir okkar, í þessu tilfelli raforkuna, í okkar eigin landi, til uppbyggingar á okkar eigin atvinnuvegum, til uppbyggingar á landsbyggðinni, til að treysta byggðir landsins, m.a. til að bæta búsetuskilyrði á landsbyggðinni, o.s.frv. Þetta á að vera forgangsverkefnið. Ég minnist þess að einn þingmaður Viðreisnar talaði um að það væri svo eftirsóknarvert að geta selt orkuna á sem hæstu verði til útlanda, að það myndi færa ríkissjóði svo miklar tekjur. Hvað á svo að gera við þá peninga? Á að útdeila þeim á landsbyggðinni í formi styrkja? Er það ekki atvinna sem við þurfum? Er það ekki hún sem skiptir öllu máli til að treysta byggðirnar?