149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:09]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir ágæta ræðu. Í alþjóðasamstarfi, eins og innan Evrópska efnahagssvæðisins, ber á því að við Íslendingar séum litlir í okkur. Við segjum að sökum smæðar getum við trauðla beitt okkur og að ef við ætlum að vera með einhverjar meiningar verði okkur refsað, að við þurfum að beygja okkur undir þetta og hitt. Á tyllidögum getum við hins vegar verið leiðandi og þjóðir heimsins geta lært ýmislegt af okkur og við ættum að taka forustu í hinum og þessum efnum eins og í umhverfisvernd eða taka sæti í hinum og þessum nefndum og ráðum í alls kyns alþjóðlegu samstarfi. En þegar kemur að því sem nú blasir við, þ.e. að taka afstöðu innan þessa samstarfs sem flokkast undir Evrópska efnahagssvæðið er því teflt fram að við séum bara smáríki, séum hálfgerðir taglhnýtingar, sem ekki sé mikið mál að skera úr taglinu ef við verðum með uppsteyt.

Það vill hins vegar svo til, hv. þingmaður, að Íslendingar eru í þessu samstarfi á jafnréttisgrundvelli og er það sérstaklega tíundað í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, jafnræði aðila. Það gildir einu hvort þjóðin telur þessa 350 þús. einstaklinga eða 5 milljónir manna, það er jafnræði á milli aðila. Allir þessir aðilar, þeir sem koma að samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið, Evrópubandalagið sem er markaður sem telur um 550 milljónir í dag, eða Norðmenn, sem eru 5 milljónir, eða Ísland, sem telur 350 þús. — það er mikilvægt að nálgast málin á jafnræðisgrundvelli og það má ekki gleymast í þessari umræðu. Er það ekki svolítið mikilvægt í þessu, hv. þingmaður?