149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:14]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir svarið. Í samhengi við fyrri ræðu mína horfir maður út fyrir þetta samstarf okkar í Evrópska efnahagssvæðinu og inn á við, inn í Evrópubandalagið, þar sem flokkar eins og Viðreisn vilja gjarnan koma okkur fyrir. Hvernig telja menn að okkur myndi farnast þar miðað við það hvernig farið er með Breta þegar þeir óska einfaldlega eftir því að ganga út úr þessu bandalagi? Maður myndi halda að það ætti að geta gerst. Ef einhver vill ekki vera í samningssambandi við annan aðila þá ætti það að vera eðlilegasti hlutur að geta rofið það samband. En það er nú öðru nær. Evrópubandalagið hefur sýnt mjög mikla óbilgirni í þessu og ekkert verið gert til þess að liðka til fyrir því að Bretland geti farið þá leið og gengið út úr Evrópubandalaginu.

Með það í huga gætum við leitt að því hugann hvernig það yrði ef við innleiddum orkupakkann með ónýtum fyrirvörum, haldlitlum eða engum, og ætluðum svo að fara að hafa meiningar um að við hefðum nú meint eitthvað allt annað eða að gefin hefði verið yfirlýsing um að þetta skyldi vera öðruvísi — halda menn í alvörunni talað að Evrópusambandið tæki á því einhverjum vettlingatökum ef við ætluðum að hlaupast undan samningi sem þegar hefði verið gerður?