149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:18]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Mig langar til að fara aðeins út fyrir efnið sem ég hef verið að fjalla um í kvöld og nótt, sem er innleiðingin sem slík, tæknilega og í orði kveðnu, reglugerðirnar og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, og víkja að því sem er kannski ekki alveg fast í hendi en er þó lögfest á annan hátt í samfélagi okkar, þ.e. samfélagssáttmálinn, sem hefur aðeins komið upp í umræðunni. Samfélagssáttmálinn er sá að við ætlum að búa í ákveðnu samfélagi. Það er sáttmáli í gangi, fullyrði ég, þó að hann sé ekki bundinn í einn samning sem slíkan, um það í hvernig samfélagi við ætlum að búa, þó svo að í stjórnmálunum greini okkur á um hvernig best sé að ná fram þeim markmiðum sem í sáttmálanum felast.

Samfélagssáttmálinn er í raun og veru afrakstur þess að hér eru leiðtogar í stjórnmálum og hagsmunahópar sem mynda hagsmunasamtök sem í daglegu tali eru kallaðir stjórnmálaflokkar. Þá flokka leiða svo leiðtogar sem fylgjendur hvers flokks um sig telja njóta trausts og hafa kjark og þor til þess að leiða og hafa skýra framtíðarsýn, ekki bara fyrir þann tiltekna hagsmunahóp sem myndar stjórnmálaflokkinn, heldur fyrir Ísland allt. Þegar ég segi: Ísland allt, þá meina ég hagsmuni landsins í víðum skilningi, hvort sem það er efnahagslega eða í formi náttúruverndar eða hvað það er, og þjóðarinnar sem í landinu býr. Það er leitun að manneskju með yfirsýn og hæfileika til að sætta sjónarmið, vegna þess að það er eðlilegur fylgifiskur þess að vera í stjórnmálum að þurfa að starfa með öðru fólki og samræðulistin eru stjórnmálin í eðli sínu. Það er líka mikilvægt að leiðtogar sem veljast til þessara starfa fylgi eftir af fullri hörku þeim málum sem eru mikilsverð fyrir land og þjóð. En það er líka mikilvægt að þeir séu til þess búnir að leita sátta en setji svo upp í sig tennurnar og girði sig í brók þegar svo ber undir þegar mikilsverð mál eru undir.

Um hvað snýst svo samfélagssáttmálinn, samfélagið okkar? Það er raunverulega sáttmáli sem festur er í lög en á nokkrum stöðum. Þá nefni ég til að mynda sáttmálann um jöfn tækifæri, lög um jafnrétti, menntamál og menntastefnu þjóðarinnar, að allir skuli hafa jöfn tækifæri og aðgengi til að mennta sig. Heilbrigðismálin, samgöngumálin, velferðarmálin, hagsmunagæsla í alþjóðasamstarfi og svo auðlinda- og atvinnumál.

Hér er undir hluti af þessum samfélagssáttmála og snertir ansi marga þætti af þeim margslungna samningi sem við höfum gert og við hugleiðum kannski ekki alla jafna þegar við ræðum bara um stjórnmál eða við ræðum um Ísland.

En það er sáttmáli í gangi hjá þjóðinni. Það skiptir máli að ræða þetta vegna þess að þessi sáttmáli hefur verið í gangi áratugum saman og verið ræktur meðal þjóðarinnar áratugum saman. Grunnurinn að þessum sáttmála er m.a. sá að þjóðin öll njóti auðlindanna sem fyrirfinnast á Íslandi. Við búum svo vel að þó að Ísland sé harðbýlt land er það gríðarlega gjöfult á auðlindir.

Það er eitthvað einkennilegt við það, herra forseti, að við ætlum í einu vetfangi og miklum flýti að afhenda þessar auðlindir (Forseti hringir.) erlendum yfirþjóðlegum völdum.